Innskráning í Karellen
news

Drengir í uppbótavinnu ❤️

22. 09. 2016

Uppbótarvinnan er eitt aðalmarkmiðið með kynjaskiptingunni hjá okkur og snýst um æfingu sem við sköpum fyrir börnin á hverjum degi. Uppbótarvinna er hjallískt hugtak yfir verkefni og aðstæður þar sem stúlkur og drengir fá tækifæri til að styrkja þá eiginleika sem auðveldlega geta verið vanræktir vegna kynferðis. Börnin fá öll að æfa sig í mismunandi verkefnum sem samfélagið eignar gjarnan hinu kyninu. Þannig brjótum við niður þessar staðalímyndir með það að markmiði að hugmyndir eins og „stelpulegt" og „strákalegt" nái utan um hvað sem stelpu eða strák dettur í hug að gera.

Meðal þess sem drengirnir fá sérstaka þjálfun í er margt sem lýtur að félagslegri hegðun, virðingu, nánd og umburðarlyndi. Við leggjum mikið upp úr því að drengjunum líði vel með hvers konar nálægð hver við annan og að þeir séu óhræddir við að sýna væntumþykju í verki. Það er enda mjög þakklátt að fylgjast með drengjum sem þekkja ekki þann ótta og leggja mikið á sig til að fá að knúsa vini sína „einu sinni enn" áður en þeir fara heim eftir daginn. En börnin verða fyrir áhrifum frá öllu sem þau sjá og heyra og eftir því sem þau eldast laumar samfélagið utan veggja skólans stanslaust að þeim hugmyndum um að slík hegðun af hálfu drengja sé í besta falli óæskileg. Þess vegna megum við ekki sofna á verðinum og höldum m.a. alltaf inni svokölluðum nálægðaræfingum, þar sem vinirnir fá tækifæri til að slaka á og dýpka traustið sem þeir bera hver til annars. Í þessum æfingum kemur oft við sögu nudd með kremi, naglalökkun, hárgreiðsla og þar fram eftir götum, og það sem kemur okkur kannski minnst á óvart er að drengirnir hafa ekki síður gaman af þess háttar leikjum en stúlkurnar.




















Það eru góðir vinir á Laufásborg!!!

© 2016 - Karellen